Lífræn kirkja og pílagrímafélagið / vinahópa Jesú

IMG_0081

Samkirkjulegur vinnuhópur um lífræna kirkju á Íslandi

Markmið okkar eru að stuðla að:

  1. Lífrænum kirkjuvexti
  2. Sjá fylgjendur Jesú Krists margfaldast
  3. Einingu og samstöðu kristins fólks í landinu

Pílagrímafélagið / Vinahópar Jesú

(Life Transformation Groups)

pilagrimamynd

Ágæti lesandi, takk fyrir að kíkja á vefsíðu okkar.

Við sem að þessu stöndum trúum því að Life Transformation Groups komi á hárréttum tíma inn í Íslenskar aðstæður. Nú er lag fyrir okkur sem eigum Jesú Krist að leiðtoga að finna nýja samstöðu og styrk. Það sem heitir ýmist Pílagrímafélagið eða Vinahópar Jesú hefur þann einfalda tilgang að skapa vettvang þar sem kristið fólk heldur hvert öðru ábyrgu og skorar hvert á annað að lifa ósviknu andlegu lífi.

Pílagrímar eru vinir Jesú Krists

Í starfi Pílagrímafélagsins er sú hugsun miðlæg að Jesús kallaði fylgjendurna vini sína.  Nóttina áður en hann var svikinn, framseldur og krossfestur sagði hann við lærisveinana:

Þið eruð vinir mínir ef þið gerið það sem ég býð ykkur. Ég kalla ykkur ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla ykkur vini því ég hef kunngjört ykkur allt sem ég heyrði af föður mínum.[1]
     Kirkja Jesú Krists er vinasamfélag og fjöldahreyfing lærisveina. Vinir Krists um allan heim eru fólk á ferð, pílagrímar sem þekkja rödd góða hirðisins og leitast við að fylgja honum, líkjast honum.[2]
     Við þekkjum það hvað vinátta skiptir okkur miklu máli í daglegu lífi. Án vináttu er lífið dauft. Vináttan við Jesús tengir lærisveina hans saman, þau eru trúnaðaraðilar sem vilja hvert öðru það besta rétt eins og Kristur sjálfur vill. Boðorð hans er einkum það að við elskum hvert annað.[3]
     Enn eitt einkennir pílagríma allra tíma; þeir mynda ekki lokaða hópa. Lýsingar Guðspjallanna á því hvernig Jesús umgekkst fólk og margar af dæmisögum hans vitna um það hvernig Jesús þráði vináttu allra.[4] Þegar við byrjum að fylgja Kristi vaknar hjá okkur löngun til að leiða aðra til þekkingar á honum að þau fái líka að læra af honum og verða vinir hans. Þannig má segja að vinir Jesú hljóti sífellt að leita nýrra vina sem þeir geti kynnt fyrir honum. 

Félagsvinnan er ekki flókin

Aðalhlutverk pílagrímafélagsins er að hjálpa hvert öðru að lifa ósviknu andlegu lífi. Unnið er í tveggja til þriggja manna hópum og til að gæta þess að öll séu eins frjáls að tjá sig og hægt er hefur niðurstaðan orðið sú að hafa kynskipta hópa. Tveir eða þrír af sama kyni hittast reglulega til að iðka þrjár heilagar venjur:  Biblíulestur, heiðarlegt samtal og fyrirbæn fyrir öðrum.

1.    Biblíulestur:

Pílagrímarnir iðka reglubundinn Biblílestur með hlustun. 
Á hverjum morgni vekur hann eyra mitt svo að ég hlusti eins og lærisveinn.[5]
Hópurinn velur sér nokkra kafla sem hann vill hafa til íhugunar fyrir vikuna.  Félagarnir lesa daglega og hlusta eftir því sem Guð vill segja þeim.  Mælt er með 20 til 30 köflum á viku.  (T.d. Matteus 5-7 sjö sinnum eða allt Jóhannesarguðspjall einu sinni.)  „Markmiðið er að fá fólk til að endurlesa mikið magn af ritningunni í samhengi.”[6]
            Hvert skipti sem hópurinn hittist er spurt:  Náðir þú að lesa og hlusta eins og til stóð?  Ef einhver getur ekki svarið “já” er sami ritningarlesturinn endurtekinn fyrir næsta fund. Þetta er alls ekki hugsað sem refsing, heldur er það gott þegar þetta gerist. Með endurtekningu festist sannleikur orðsins og gildi þess dýpra í lífi einstaklinganna og við þjálfumst í því að viðurkenna þegar við ekki náum settu marki án þess að skammast okkar fyrir það.

2.  Heiðarlegt samtal:

Pílagrímarnir halda hver öðrum ábyrgum í heiðarleika.
Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru því að þar eru uppsprettur lífsins. [7]
Í því skyni að varðveita hjarta okkar og mýkja það gefum við öðrum færi á okkur með því að svara spurningum sem númeraðar eru hér að neðan. Höfum hugfast að hver svarar fyrir sig. Enginn leiðréttir annan heldur lærum við af því sem hinir segja. Spurt er:
  1. Hefur þú fundið Krist að verki i lífi þínu síðustu daga? Viltu útskýra?
  2. Hefur það skilast til þín í þessari viku að þú ert elskað Guðs barn? Viltu segja frá?
  3. Náðir þú að lesa og hlusta eins og til stóð?
  4. Hvað heldurðu að Guð sé að kenna þér?
  5. Þarftú að játa einhverja synd? Þ.e.a.s. Eru einhver atriði í lífi þínu sem standa á milli þín og Guðs, fjarlægja þig vilja hans og skemma tengsl þín við sjálfa(n) þig og aðra?
  6. Hvernig ætlar þú að bregðjast við þinni betri vitund?
  7. Hefur einhver séð Krist í þér í sl. viku? Hefur einhver fundið á eigin skinni að þú sért  vinur og nemandi Jesú?
Spurningar eins og þessar hjálpa okkur til að taka framförum í kristilegu hugarfari og líferni.  Þær afhjúpa einnig atriði sem meiða og skaða og sem samræmast ekki Kristi.

3. Fyrirbæn:

Pílagrímarnir biðja fyrir öðru fólki að Guðs góði vilji og vinátta Krists verði að veruleika í lífi þess.  
Játið fyrir öðru syndir ykkar og biðjið hvert fyrir öðru til þess að þið verðið heilbrigð. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið. [8]
Hver í hópnum nefnir tvo eða þrjá einstaklinga sem honum eru á hjarta lagðir.  Þessi nöfn skráir hann á lista, ásamt þeim nöfnum sem hinir í hópnum koma með. Hver þátttakandi tekur að sér að biðja fyrir a.m.k. einum af þessum einstaklingum daglega við Biblíulesturinn. Þannig er beðið vikulega fyrir 6 – 9 einstaklingum vikulega sem þurfa á vináttu Jesú að halda.
     Vera má að þeir sem við biðjum fyrir bætist um síðir í hópinn okkar, og verði til þess að við myndum nýjan hóp.  Við viljum að sem flestir megi upplifa það að vera vinir og nemendur Jesú Krists.
 

Tilvitnanir:

[1]Jóhannes 15:14-15
[2]Sjá Postulasagan 11:26 þar sem söfnuðurinn í Antíokkíu þekktist sem lærisveinar Krists og voru síðan kallaðir „kristnir” því að þeir voru svo líkir Kristi.
[3] Jóhannes 15:17
[4] t.d. Jóh. 4.1-42 og Mark. 6. 34
[5] Jes. 50.4
[6]Neil Cole, Cultivating a Life for God, 66.  
[7] Ok. 4.23
[8] Jak. 5.16